Skip to main content
19. apríl 2024

Heiða María hlýtur Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs 2023

Heiða María hlýtur Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs 2023 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Heiða María Sigurðardóttir, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, hlýtur Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs 2023 en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Þá hlaut Þórhildur Halldórsdóttir, lektor við Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi starfsmaður við HÍ, verðlaunin fyrir árið 2024. Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, afhenti verðlaunin fyrir hönd ráðherra.

Heiða María er sérfræðingur í taugavísindum með sérstaka áherslu á hugræn taugavísindi. Hún útskrifaðist úr grunnnámi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2005 og stundaði doktorsnám við taugavísindadeild Brown-háskóla í Bandaríkjunum þaðan sem hún lauk doktorsprófi  árið 2013. Doktorsritgerð hennar fjallaði um hvernig heilinn vinnur úr upplýsingum um það sem við sjáum til þess að stýra augum okkar og athygli og áhrif reynslunnar á hugar- og heilastarf. 

Að loknu doktorsnámi lá leið Heiðu aftur til Íslands þar sem hún stundar rannsóknir og sinnir kennslu við Háskóla Íslands. Hún tók við stöðu lektors við Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands árið 2016 og árið 2023 hlaut hún þar framgang í stöðu prófessors. 

Heiða hefur á undanförnum árum verið afkastamikill rannsakandi. Hún er meðhöfundur á fleiri tugum vísindagreina sem safnað hafa fleiri hundruðum tilvitnana og leitt fjölmörg rannsóknaverkefni sem meðal annars hafa hlotið styrki úr Rannsóknasjóði.

Rannsóknastarf Heiðu einkennist af frumleika og áræðni, meðal annars í nýjungakenndum hugmyndum um tilurð lesblindu þar sem hún hefur sett fram hugmyndir og prófað í tilraunum kenningu um frávik í starfsemi taugafræðilegra þátta við úrvinnslu skynáreita sem leikið geta hlutverk hjá sumum sem takast á við þann vanda.

„Heiða er mikils metinn kennari og hefur reynst góður stjórnandi í þeim verkefnum sem hún hefur tekið að sér bæði fyrir deild og svið. Hún hefur lagt mikinn metnað í þróun kennsluhátta og að leiðbeina ungu vísindafólki í rannsóknaverkefnum sínum auk þess sem hún hefur mjög gott lag á að útskýra viðfangsefni sín svo bæði leiknir og lærðir skilji, og verið ötul við að miðla þekkingu sinni til almennings. Sú áræðni hefur meðal annars skilað Heiðu inngöngu í Kennsluakademíu opinberu háskólanna árið 2023,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar um Heiðu.

Þórhildur Halldórsdóttir er sérfræðingur í klínískri barnasálfræði með sérstaka áherslu á áhættu og verndarþætti sem móta líðan hjá börnum og unglingum. Hún útskrifaðist úr grunnnámi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2008 og lauk meistaranámi í klínískri barnasálfræði árið 2011 og doktorsnámi árið 2014, hvort tveggja hjá Virginia Tech í Bandaríkjunum. Eftir að Þórhildur fluttist aftur til Íslands starfaði hún um tíma hjá Unni Valdimarsdóttur, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands en hefur starfað hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2019.

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs  eru veitt vísindafólki sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, en markmiðið með þeim er að hvetja vísindafólk til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindafólks.
 

Þórhildur Halldórsdóttir og Heiða María Sigurðardóttir við afhendingu verðlaunanna.