Skip to main content
23. apríl 2024

Sameiginleg námsleið HÍ og HA um fagháskólanám í leikskólafræði dafnar vel

Sameiginleg námsleið HÍ og HA um fagháskólanám í leikskólafræði dafnar vel - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á liðnu hausti hófu um fimmtíu nemendur nám á nýrri námsleið í leikskólafræði á fagháskólastigi. Námsleiðin er samstarfsverkefni kennaradeilda við HÍ og HA en nemendur starfa á leikskólum víða um land. Nemendur og kennarar hittust í tveggja daga staðlotu á Akureyri í liðinni viku í námskeiðunum Hreyfing og leikræn tjáning – úti og inni og Leikur, kenningar og leikþroski svo það var líf í tuskunum eins og nærri má geta. Á sama tíma kom verkefnisstjórn fagháskólanámsins saman til að meta stöðuna og leggja drög að næsta skólaári. 

„Veglegur styrkur frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu gerir okkur kleift að bjóða nýjum hópi inngöngu í námið á komandi hausti. Við erum að hefja kynningar til sveitarfélaga en samstarfið við þau er mikilvægt og forsenda fyrir inngöngu nemenda í námið. Við skipuleggjum 60 eininga eða eins árs nám á tveimur vetrum, kennum hálfan dag vikulega á vinnutíma, á netinu, en hittum svo allan hópinn tvo daga á hvoru misseri,“ segir Kristín Jónsdóttir, dósent við Deild kennslu og menntunarfræði við HÍ og stjórnandi verkefnisins. „Það var frábært að sjá nemendahópinn og heyra af áhuganum og eljunni sem þau hafa sýnt. Við sjáum að kennslufyrirkomulagið er fínt og árangurinn góður svo við höldum ótrauð áfram.“ 

Þessa dagana er verið að bjóða fulltrúum í sveitarstjórnum og leikskólastjórum til kynningarfunda. Sérstakir kynningarfundir verða fyrir starfsmenn sem hafa áhuga og gætu sótt um námið en til þess þarf viðkomandi að starfa í leikskóla og hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu af leikskólastiginu. Skipulag námsins má sjá hér 

„Það er eftir heilmiklu að slægjast. Að loknu fagháskólanámi geta nemendur fengið það að fullu metið inn í leikskólakennaranám hvort heldur er við Menntavísindasvið HÍ eða Kennaradeild HA. Námið hefur líka mikið gildi í sjálfu sér. Það er gaman að læra leikskólafræði og kynnast nýju fólki, það sást sannarlega á hópnum sem hittist fyrir norðan. Fólk eflist verulega í daglegu starfi þegar nám og starf fléttast vel saman og það er ávinningur fyrir leikskólana þar sem þau starfa,“ segir Kristín að lokum.

Á myndunum má sjá nemendur í fagháskólanámi í leikskólafræði æfa leikræna tjáningu með meiru og verkefnisstjórn fagháskólanáms í leikskólafræði og kennara í staðlotu á Akureyri í apríl 2024.

Myndir: Aníta Eldjárn

Fagháskólanám í leikskólafræði
Fagháskólanám í leikskólafræði
Fagháskólanám í leikskólafræði
Fagháskólanám í leikskólafræði